Lætin í Ráðhúsinu s.l. fimmtudag

S.l. fimmtudag gerði ég mér ferð í Ráðhúsið. Langaði að fylgjast með hvernig fundurinn yrði nú, þar sem ég var einnig viðstödd þegar fráfarandi meirihluti tók við völdum.
Í fyrsta lagi var erfitt að fá bílastæði í miðbænum, jafnvel þótt ég væri tímanlega. Loks tókst mér að leggja bíl mínum bak við strætóhúsið í Lækjargötu. Mig minnir að ég hafi borgað tæplega 400 krónur fyrir tvo tíma og tuttugu mínútur í stöðumælinn. Hugsaði um það á leið í Ráðhúsið að betra hefði verið að taka strætó, eða láta keyra mig á staðinn. Heilsaði nokkrum þingmönnum á leið minni framhjá Alþingishúsinu og velti fyrir mér í hvaða aðstæður ég væri að fara.
Fjöldi fólks hafði safnast saman við innganginn og alla leið upp á áheyrendapallana. Sjónvarpsmyndavélar og fréttamenn að fylgjast með og mynda fjörið. Fyrir utan alla menntaskólakrakkana sá ég einn og einn stuðningsmann fráfarandi meirihluta.
Það var svo troðið við innganginn inn á áheyrendapallana, að ég var farin að sjá sjá eftir fjörurhundruðkallinum og ætlaði að snúa við og fara aftur heim, en var svo heppin að félagi minn úr Breiðholtinu bauð mér sæti fremst á pöllunum og gat því fylgst vel með öllu sem fram fór.
Það sem stakk mig mest er hversu mikil heiftin var í "mótmælendunum" og einnig að sjá Svandísi Svavarsdóttur ýta undir frekari læti heldur en að róa sitt fólk. Einnig fannst mér að fráfarandi borgarstjóri hefði geta staðið upp og beðið fólkið "sitt" að róa sig og sýna stillingu.
Eftir ýmis dónaleg frammíköll og að mínu mati mikla vanvirðingu við fundinn, heyrði ég að tveir ungir menn sem höfðu staðið fyrir frammíköllunum voru að tala saman og annar sagði við hinn "....þegar Dagur og hin konan töluðu...." átti þá við Svandísi Svavarsd. var mér ljós að þessir ungu herrar vissu lítið um hvað málin snérust í Ráðhúsinu þennan dag.
Ég lét mig hverfa fljótlega eftir að hlé var gert á fundinum, yfir mig hissa á framkomu unga fólksins. Og minntis þess að sitja á pöllunum í október, þar sem fólk þorði varla að hreyfa sig til að valda ekki truflun á fundinum.

Til hamingju með nýjan meirihluta í borginn - kæru borgarbúar!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband